Á Flúðum er eitt slíkt þorp og þar var hljóðritað laugardaginn 3. júlí 2010. Þegar hljóðstyrkurinn er magnaður kemur ýmislegt í ljós og hljóðumhverfið er hið fjölbreytilegasta.
Fyrra hljóðritið er frá því um kvöldmatarleytið. Þá var mikill ys og þys í hverfinu. Hljóðritað var af svölum eins bústaðarins.
Síðar um kvöldið eða um kl. 22 var skollin á rigning, en það hafði gengið á með skúrum um daginn. Þá var enn farið út. Ekki vænti ég mikils af þessari hljóðritun. Enn var hljóðstyrkurinn aukinn að mun og þá kom vitanlega í ljós að umferðarhávaði barst frá þjóðveginum. Einnig virtist mér þyrla sveima um nágrennið. Glöggir hlustendur geta heyrt hin margvíslegustu hljóð, en að ássettu ráði er hljóðritið ekki sett inn á vefinn með fullum hljóðstyrk.
Heyra má vatn seytla í pott með heitu vatni, en sírennsli er í pottinn. Á Flúðum er gnægð heits vatns og dettur engum í hug að spara það.
Hljóðritasnillingurinn Magnús Bergsson hefur einnig verið á Flúðum. Bárum við saman bækur okkar og komumst m.a. að því að stöðugt erfiðara er að komast út í íslenska náttúru þar sem ekki er mengun af völdum vélahljóða og annarra hljóða sem fylgir nútímalífi. Það er því eðlilegt að þessi hljóð fljóti með.
Lystisemdir lífsins | 4.7.2010 | 11:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)

Birgir Þór Árnason er mið-barnabarn okkar Elínanr, fæddur 15. febrúar 2005. Bræður hans eru Hringur og Kolbeinn Tumi.
Þegar Birgir Þór byrjaði að tala varð fljótlega ljóst að hann væri kverkmæltur. Með aðstoð foreldra sinna og ömmu tókst honum að vinna bug á kverkmælginni og naut ekki síst til þess aðstoðar Ásthildar Snorradóttur, talmeinafræðings. Í vetur fór svo að kverkmælta r-ið hvarf.
Á hljóðsíðum þessum hefur verið birt hljóðrit frá 2008 þar sem heyrist að pilturinn sagði vel frá, söng og r-ið kom greinilega fram. Í dag, 29. júní 2010, tók ég hann tali og fékk hann til að kveða vísu sem hann kann um sjálfan sig.
Ljósmyndina tók Elín amma á 5 ára afmælisdegi hans.
Vinir og fjölskylda | 29.6.2010 | 19:21 (breytt kl. 19:25) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Veturinn 2006 hvarf hann um skeið úr bílskúrnum. Um vorið kom hann síðan aftur og þá hálfu öflugri en fyrr. Nú hafði hann með sér heila hljómsveit sem æfði fyrir unglingahátíð á Seltjarnarnesi. Eftir hádegi einn föstudag í maí 2006 var mild vestangola eins og oft um þetta leyti árs og piltarnir í bílskúrnum voru í ham. Heilmikið var um að vera, talsverð umferð bíla og flugvéla og hljóðumhverfið hið ákjósanlegasta. Stalst ég til að hljóðrita og stillti shure VP88 upp á borði úti á svölum. Notaður var Nagr Ares-M hljóðriti.
Tónlist | 27.6.2010 | 20:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)

Þegar við héldum áleiðis frá safninu sáum við hvar þrír piltar börðu einhver tól, en að sögn þeirra var verið að undirbúa þau undir málningu. Í ljós kom að þetta voru hinar frægu togvíraklippur sem ollu breskum togarasjómönnum sem mestu tjóni í síðustu þorskastríðunum. Féllust piltarnir á að leika listir sínar en ég hét þeim að útvarpa listaverkinu við fyrstu hentugleika. Því er hvaða útvarpsstöð sem er heimilt að senda þessa hljóðmynd út á öldur ljósvakans.
Vakin er athygli á heiti hljóðritsins. Áréttað skal að piltarnir voru þrír enda sannar myndin það svo að ekki verður um villst. Gaman væri að fá nöfn piltanna í athugasemd við þessa færslu.
Sjórinn | 24.6.2010 | 17:47 (breytt 26.6.2010 kl. 22:52) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hljóðsýnin eru að þessu sinni 3. Staldrað við á Ingólfstorgi og hlustað á Varsjárbandalagið flytja íslensk-balkneska þjóðrembusyrpu, rölt eftir Lækjargötu í átt að Arnarhóli að hlusta á Hjaltalín og að lokum gengið eftir Aðalstræti. Notaðir voru örsmáir Sennheiser hljóðnemar sem festir voru á gleraugnaspangir og fór enn sem fyrr að fólk hélt að þetta væri nýjasta hjálpartækið mitt. Notaður var Nagra Ares BB+ hljóðriti og tekið upp í 24 bitum og 44,1 kílóriðum.
Fólki er eindregið bent á heimasíðu Varsjárbandalagsins á Fésbókinni, en þar getur það gerst aðdáendur þessarar skemmtilegu hljómsveitar, horft á myndbönd o.s.frv.
Bloggar | 22.6.2010 | 18:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Við fórum á stúfana að morgni laugardaginn 9. ágúst 1986 og gengum á milli verslana í hverfinu Jiaodakou þar sem við bjuggum. Emil, sem er afbragðs sögumaður og vel máli farinn, lýsti varningnum sem á boðstólum var og sagði frá verði hlutanna. Rétt er að taka fram að þá voru 12 íslenskar krónur í einu Rnminbi og umreiknuðum við verðið jafnóðum til íslensks verðgildis. Þá voru meðalaun embættismanna 100 Renminbi og höfðu þá hækkað um tæp 90% frá árinu 1975.
Gríðarlegar breytingar harfa orðið á kjörum almennings á þeim rúmu tveimur áratugum sem liðnir eru síðan þetta hljóðrit var gert. Auk Emils ber ýmislegt fyrir eyru. Hlustendur taka væntanlega eftir því hvað reiðhjól voru áberandi í umferðinni á þessum tíma. Samt þótti okkur nóg um bílaumferðina í miðborg Beijing árið 1986.
Hljóðritað var með Sony TCD5 snældutæki og Shure 63L hljóðnema.
Kínversk málefni | 13.6.2010 | 12:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þann 9 ágúst 1986 átti ég mjög athyglisvert viðtal við tvær ungar stúlkur austur í Bejing. Vinurminn og félagi, Emil Bóasson, lagði einnig til spurningar enda vorum við saman við að afla okkur efnis í 8 þætti fyrir Ríkisútvarpið. Eftir að viðtalinu lauk urðu nokkuð ákafar umræður á milli okkar Emils og stúlknanna og hlaust af nokkur hávaði. Við bjuggum þá á gistiheimili Vináttusamtakanna í Beijing sem er í gömlu og rótgrónu hverfi sem nefnist Jiaodakou eða Vegamót. Kom húsvörður til þess að vita hvað gengi á. Honum var sagt að einungis stæðu yfir rökræður og hvarf hann á braut. Stúlkurnar hurfu líka á brott skömmu síðar.
Þegar þær voru nýfarnar skall fyrirvaralítið á ógurlegt úrhelli með þrumum og eldingum. Við Emil ræddum að þetta væri eins og í byltingaróperu, en þegar leikar stæðu þar hæst skylli einatt á þrumuveður, samanber 1. þátt Rauðu kvennaherdeildarinnar. Ég stóðst ekki mátið þrátt fyrir áhyggjur af stúlkunum, opnaði dyrnar og hljóðritaði ósköpin. Einungis þéttriðið flugnanet var á milli mín og rigningarinnar.
Hinn 29. júlí árið 2009 vorum við Elín á Ísafirði. Um 5-leytið síðdegis fór hún að kaupa í matinn en ég beið í bílnum. Þungbúið hafði verið um daginn en þegar Elín fór í innkaupaleiðangurinn gerði hellidembu. Ég stóðst ekki mátið og hljóðritaði það sem fyrir eyru bar.
Heilmikill munur er á þessum rigningum. Fyrra hljóðritið er gert með Sony TCD5. Notuð var Sony metal-snælda. Hljóðneminn var Sennheiser MD21U.
Tuttug og fjórum árum síðar notaði ég Nagra Ares BB+ og tvo Sennheiser ME62 hljóðnema. Rigningin á Ísafirði var ekki eins þétt og í Beijing og hvorki fylgdu þrumur né eldingar.
Vatnið | 12.6.2010 | 20:14 (breytt kl. 21:19) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)

Við hjónakornin lögðum land undir hjól og riðum orminum til Nauthólsvíkur. Þar var hann tjóðraður og við gengum að veitingasölunni. Settumst við þar á bekk og ég hljóðreit mannlífið. Börn skríktu, fólk spjallaði, buslaði, þrammaði um og golan strauk blíðlega hljóðnemunum og mér um norðvestur-vangann.
Myndina tók sérlegur ljósmyndari hljóðbloggsins, sem verið hefur eiginkona mín í 21 ár og 1 dag.
Bloggar | 11.6.2010 | 20:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég hef nokkrum sinnum hljóðritað umferð á Íslandi en ekki séð ástæðu til að birta afraksturinn. Einnig hef ég nokkrum sinnum hljóðritað umhverifið við tjarnarból 14 á Seltjarnarnesi. Svalirnar snúa í suðvestur og á bakvið er Nesvegurinn með sinni umferð.
Mér finnst ég búa í tiltölulega hljóðlátu umhverfi en veit þó að það yrði enn hljóðlátara ef ég byggi annars staðar á nesinu. Hljóðneminn getur blekkt álíka mikið og ljósmyndavélin og er afrakstur hljóðrits oftast nær í réttu samhengi við áhugamál þess sem hljóðritar. Þó getur það gerst að ýmislegt óvænt slæðist inn á minniskort tækisins.
Mánudaginn 7. júní á því herrans ári 2010 var stafalogn á Seltjarnarnesi framundir hádegi. Upp úr kl. 11 setti ég Shure VP88 hljóðnema út á svalir og nam hann um stund það sem gerðist í kring. Lítil umferð var um Tjarnarbólið en þó má greina ýmis merki þess að sumar hafi ríkt. Enginn ók um á negldum hjólbörðum. Það heyrist í nokkrum störrum, greina má ördaufan þrastasöng í fjarska, einhver notar slípirokk o.s.frv. Að baki er umferðin sem myndar þennan sífellda en breytilega hljóðgrunn höfuðborgarsvæðisins.
Bílar og akstur | 8.6.2010 | 09:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)

Í kvöld fórum við Elín út í fjöruna við Gróttu. Ég varð mér úti um Blimp-vindhlíf frá Röde, en Magnús Bergsson smitaði mig af blimp-sýkinni. Það var allsnörp suðvestan gola. Ég ákvað að nota Shure VP88 víðómshljóðnema. Golan var svo hvöss að ég neyddist til að skera af 100 riðunum á Nagra Ares BB+. Þarna bjargaði vindhlífin því sem bjargað varð við þessar aðstæður.
Þegar ég fór yfir hljóðritið síðar í kvöld reyndi ég að losna við eitthvað af goluskvaldrinu með lágtíðniafskurði, en það gerði bara illt verra. Þeir sem hafa gaman af að hljóðrita á voru vindblásna landi verða að leyfa vindinum að njóta sín öðru hverju. Magnús Bergsson er til dæmis snillingur í því. Ég hugsaði einnig að ég hefði e.t.v. átt að nota loðhlíf. Þá hefði ég misst eitthvað af hátíðninni og blikaskvaldrið hefði orðið ónýtt.
Ég birti hér tvö hljóðrit. Í því fyrra er þröngt hljóðhorn, en ég víkkaði það í seinna hljóðritinu. Ég reyndi einnig í þriðju tilraun að snúa hljóðnemanum þannig að hann vissi betur við fuglunum en þá varð vindurinn of yfirgnæfandi í annarri rásinni.
Elín Árnadóttir, sérlegur hljóðbloggsljósmyndari, tók þessa mynd í kvöld.
Fuglar | 7.6.2010 | 23:09 (breytt 15.5.2012 kl. 22:35) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Færsluflokkar
- Aðventan
- Áramótahljóð
- Birds
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Cars and engines
- China
- Dægurmál
- Environmental sounds
- Ferðalög
- Fuglar
- Grímsey
- Heilsa og heilsuvernd
- Heimilishljóð
- Hjólreiðar
- Hringitónar - Ringtones
- Kínversk málefni
- Kínversk tónlist
- Kveðskapur og stemmur
- Lífstíll
- Ljóð
- Lystisemdir lífsins
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Minningar
- Music
- Religion
- Reykjavík
- Samgöngur
- Seltjarnarnes
- Sjórinn
- Spaugilegt
- Stjórnmál og samfélag
- Strandabyggð
- Sögur af sjó
- Tónlist
- Trúmál
- Umhverfishljóð
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Útvarp
- Vatnið
- Veitingahús
- Veraldarvefurinn
- Vestmannaeyjar
- Vélar
- Viðtöl
- Vindurinn - The wind
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Water and waterfalls
- Wind
- Þjóðlegur fróðleikur
Bloggvinir
Júlí 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.7.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 65748
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar