Færsluflokkur: Vatnið
Báðar eru þessar vélar afar hljóðlátar. Á meðan ég var atvinnulaus hlustaði ég stundum eftir hljóðum vélarinnar á meðan hún þvoði og ég lét hugann reika. Tók ég þá eftir því að hljóðin voru margvísleg og ólík eftir því hvað þvegið var. Til dæmis þykir vélinni gaman að þvo stóra potta og önnur ílát sem hljóma vél.
Þriðjudaginn 9. október 2007 fannst mér liggja óvenjuvel á vélinni og var greinilegt að eitthvað skemmtilegt sýslaði hún við. Ég sótti því hljóðrita og hljóðnema og stillti upp framan við hana. Þá heyrðust enn fleiri hljóð en ég hafði áður greint, en hljóðneminn var í u.þ.b. 30 cm hæð frá gólfi.
Vélin er svo taktföst að hæfileikaríkur tónlistarmaður getur auðveldlega notað undirleik hennar sem viðbót eða undirstöðu í eitthvert ofurskemmtilegt lag eða tónverk. Skyldi ég geta sótt um styrk frá siemens til að semja næsta Evróvisjónlag? Hver veit nema það ryki upp í fyrsta sæti og Íslendingar fengju efnahagsaðstoð frá Þjóðverjum til að halda keppnina.
Fái einhver annar þessa hugmynd eftir lestur þessa pistils og verði fyrri til en ég óska ég honum góðs gengis.
Vatnið | 31.5.2010 | 23:12 (breytt kl. 23:25) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Meðfylgjandi hljóðrit greinir frá því er maður kom heim til sín í leigubíl á rigningarmorgni í nóvember 2007. Flest hljóð benda til þess að talsvert hafi rignt.
Hljóðritað var með Nagra Ares BB+ og Shure VP88 víðomshljóðnema.
Vatnið | 30.5.2010 | 22:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudaginn 26. Júní héldum við Elín áleiðis úr Reykhólasveitinni norður til Súðavíkur. Námum við staðar við fossinn Dynjandi og nutum þar umhverfisins. Hljóðritaði ég fossinn og reyndi að fanga hin margbreytilegu hljómbrigði. Notaði ég Nagra Ares BB+ og tvo Sennheiser ME62 hljóðnema sem vísuðu u.þ.b 45° hvor frá öðrum. Um 120 cm voru á milli hljóðnemanna.
Myndirnar tók Elín, eiginkona mín, félagi og vinur.
Fyrsta hljóðritið er tekið við neðstu fossana.
Þá kemur Hundafoss.
Síðan var staðnæmst við göngumannafoss.
Nokkru ofar fundum við heppilegan stað þar sem ég settist. Elín hélt áfram upp að Fjallfossi. Þar tóku þýskir ferðamenn af henni myndina sem tengd er þessari færslu ásamt mynda- og hljóðskrám. Þar sem ég beið Elínar og naut nálægðarinnar við fossinn beindi ég hljóðnemunum frá dynjandi hávaðanum. Takið eftir dýpt hljóðsins.
Hljóðritin eru birt í fullum gæðum.
Dynjandisvogur fyrir botni Arnarfjarðar er einstök náttúruperla. Þar er einn fegursti foss landsins og mesti foss Vestfjarða - Dynjandi. Fossinn og umhverfi hans er friðlýstur sem náttúruvætti. Áin Dynjandi rennur ofan af Dynjandisheiði sem liggur í jaðri hálendissvæðis Glámu.
Dynjandi er ótrúlegur á allan hátt og er ein af fegurstu djásnum Íslands. Áin fellur fram af fjallsbrúninni niður nær 100 metra hátt bungumyndað berg með smástöllum. Fossinn breiðir úr sér yfir klappirnar sem eru í reglulegum stöllum og fellur þrep af þrepi.
Bergið er myndað af hörðum hraunlögum og millilögum úr sendnum leir sem eru mun mýkri. Mjúku millilögin hafa gefið eftir undan ágangi jökuls og síðar vatns og fossastigi hefur myndast.
Fossarnir í Dynjandi eru sex. Efst er tilkomumesti fossinn, Fjallfoss, 30 metra breiður efst og um 60 metra breiður neðst. Hann er um 100 metra hár. Neðar í ánni eru Hundafoss, Strokkur, Göngumannafoss, Hrísvaðsfoss og Sjóarfoss. Minnir fossaröðin helst á brúðarslör. Hægt er að ganga á bak við Göngumannafoss. Hvergi á landinu ber fyrir augu fegurra fossasvæði í einni sjónhending.
Dynjandi var aldrei nefndur annað en Dynjandi fyrr en einstaka menn fóru að kalla hann Fjallfoss á fyrri hluta 19. aldar. Fossinn ber nafn með rentu því drunurnar frá honum berast langar leiðir.
http://www.breidavik.is/Is/Naesta_nagrenni/Dynjandi_-_Fjallfoss/
- Neðstu fossar Dynjandi (hljóðrit)
- Hundafoss í Dynjandi (hljóðrit)
- Það er djúpur tónninn í Göngumannafossi (hljóðrit)
- Drunurnar í Dynjandi heyrast langt að (hljóðrit)
- Fossarnir í Dynjandi eru ein fegurstu djásn Íslands.
- Elín Árnadóttir fór alveg upp að rótum Fjallfoss í Dynjandi.
- Fagur hylur í fossastiganum
- Dynjandisvogur, myndin tekin neðarlega úr hlíðinni.
- Einn af neðri fossunum
- Hljóðritarinn að störfum
- Þessi mynd af dynjandisvogi er tekin ofar í hlíðinni
- Efsti foss Dynjandi er Fjallfoss.
- Dynjandi mynda fjöldi fossa og flúða.
Vatnið | 16.4.2010 | 23:53 (breytt 17.4.2010 kl. 10:08) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þann 29. júlí 2006 vorum við Elín á leið austur á Stöðvarfjörð. Námum við þá staðar við goðafoss og hljóðritaði ég söng hans. Ef grannt er hlustað má heyra iðuköstin.
Notaður var Nagra Ares-m hljóðriti og Shure VP88 hljóðnemi. Hljóðritað var á 44,1 kílóriðum í 16 bita upplausn. Hljóðritið er birt hér í fullri upplausn.
Vatnið | 14.4.2010 | 23:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í fyrra tók ég saman nokkur hljóð sem tengjast vori og sumri.
Við hefjumst handa í fjörunni við Gróttu, höldum þaðan út í eyjuna og skjálfum dálítið í næðingnum. Notaðir voru tveir Sennheiser ME62 og Nagra Ares BB+.
Þaðan er haldið út á göngustíginn meðfram Ægisíðu. Þar verður fyrir okkur pirraður hundur, fuglar syngja, fólk hleypur og hjólar. Þetta var hljóðritað með Nagra Ares-M og Shure VP88 hljóðnema vorið 2006.
Þá greinir frá samskiptum hrafns og sauðkindar. Það hljóðrit fékk ég að láni hjá aðstandendum sýningarinnar Reykjavík 871 +-2, sem allir ættu að sjá.
Næsta hljóðskot er úr öldruðum GMC fjallatrukki sem skrönglaðist upp brattan slóða laugardaginn fyrir páska 2006. Þar notaði ég áfestan hljóðnema við Nagra Ares-M.
Þá er það lítill lækur og að lokum fjaran við Gróttu um miðjan apríl 2009. Þar var notaður Nagra Ares BB+.
Vatnið | 8.4.2010 | 08:36 (breytt 9.4.2010 kl. 08:54) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Víkin er fyrir opnu hafi og hefur því lendingin verið óhæg þar. Við hjónin vorum þar á ferð ásamt Unni Stefaníu Alfreðsdóttur, 2. Júlí 2009 og nutum veðurblíðunnar.
Fyrir okkur varð lítill bæjarlækur sem hnepptur hafði verið í bunustokk og gert var úr járntunnu. Tónleikur lækjjarins vakti upp gamlar minningar um brunnlokið úti í Vestmannaeyjum sem söng í rigningu.
Í grýttri fjörunni settist ég á stein og hljóðritaði skvaldur Ægis þar sem hann mynntist við lábarið fjörugrjótið. Hlustendur þessara hljóðrita hafa heyrt hluta öldugjálfursins í færslunni um síðustu augnablik Karítasar Jónsdóttur sem er birt undir þessum flokki. Takið eftir tónbrigðum sjávarins.
Nánari upplýsingar um Skálavík eru á síðunni http://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_skalavik.htm
Vatnið | 2.4.2010 | 12:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Leikurinn hófst í sundlaug Seltjarnarness einn lygnan laugardagsmorgun í október. Við vorum tveir í sturtunni og bað ég félaga minn, hver sem hann var, að veita mér viðtal en hann kvaðst of feiminn til þess. Ég var á leiðinni út og vildi fá hljóðmyndina af gönguferðinni. Því setti ég tækið á hljóðritun. Og viti menn. Maðurinn byrjaði að tala og úr varð þetta ágæta samtal sem hann vissi ekki að hefði verið hljóðritað.
Leikurinn barst svo austur að Geysi, Hringur Árnason, sem þá var 5 ára, sagði mér frá því til hvers hann notaði vatnið, litið var við á kínverska ballettinum Rauðu kvennaherdeildinni, haldið vestur í Skjaldfannardal og lækir látnir dansa saman, hverasvæði í Krísuvík skoðuð og loksins staðnæmst úti við Gróttu. Þar naut ég liðsinnis vinar míns, Magnúsar Bergssonar, hljóðlistarmanns, en hann hljóðritaði öldugjálfrið eina sumarnótt árið 1994. Vek ég sérstaka athygli á þeim hluta þáttarins.
Móðursystir mín, Guðfinna Stefánsdóttir, sagði mér einnig í þættinum hvernig fólk í Vestmannaeyjum hefði margnýtt vatnið á æskuárum sínum. Einnig greindi einn bræðra minna frá víngerð, en málrómi hans var breytt svo að hann yrði ekki lögsóttur. Nú er óhætt að upplýsa að hann heitir Páll Helgason, enda er málið fyrnt.
Heil mikið tilstand var vegna þessa þáttar. Ég hélt að ég gæti rumpað honum af eins og ég var vanur enda kom ég með allt efnið klippt og vandlega undirbúið. En tæknimaður Ríkisútvarpsins, Björn Eysteinsson, var mér ekki sammála og taldi handritið bjóða upp á flest annað en hroðvirkni. Eina ráðið væri að tölvuvinna þáttinn. Endirinn varð um 10 klst. vinna í hljóðveri.
Mælt er með því að fólk hlusti með góðum heyrnartólum. Dans lækjanna skilaði sér ekki nægilega vel í útsendingu útvarpsins, en hann fór þannig fram að ég stóð á mótum tveggja lækja og sneri mér nokkra hringi. Hlusti menn grannt geta þeir heyrt að tvö systkini, börn Lóu á Skjaldfönn, spyrja furðulostinn hvað ég sé eiginlega að gera.
Einn af dagskrárgerðarmönnum BBC, sem hélt námskeið fyrir starfsmenn Ríkisútvarpsins, tók þennan þátt sem dæmi um það sem hægt væri að gera með einu md-tæki og víðómshljóðnema.
Vatnið | 9.3.2010 | 22:28 (breytt 4.4.2010 kl. 13:05) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
- Aðventan
- Áramótahljóð
- Birds
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Cars and engines
- China
- Dægurmál
- Environmental sounds
- Ferðalög
- Fuglar
- Grímsey
- Heilsa og heilsuvernd
- Heimilishljóð
- Hjólreiðar
- Hringitónar - Ringtones
- Kínversk málefni
- Kínversk tónlist
- Kveðskapur og stemmur
- Lífstíll
- Ljóð
- Lystisemdir lífsins
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Minningar
- Music
- Religion
- Reykjavík
- Samgöngur
- Seltjarnarnes
- Sjórinn
- Spaugilegt
- Stjórnmál og samfélag
- Strandabyggð
- Sögur af sjó
- Tónlist
- Trúmál
- Umhverfishljóð
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Útvarp
- Vatnið
- Veitingahús
- Veraldarvefurinn
- Vestmannaeyjar
- Vélar
- Viðtöl
- Vindurinn - The wind
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
- Water and waterfalls
- Wind
- Þjóðlegur fróðleikur
Bloggvinir
Des. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 |
8 | 9 | 10 | 11 | 12 | 13 | 14 |
15 | 16 | 17 | 18 | 19 | 20 | 21 |
22 | 23 | 24 | 25 | 26 | 27 | 28 |
29 | 30 | 31 |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 4
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 20
- Frá upphafi: 65293
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 16
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar