Færsluflokkur: Menning og listir

Vísur Bjarka Karlssonar um Afa og ömmu kveðnar við kínverska stemmu

Arnþór kveður vísur Bjarka Karlsssonar við kínverska stemmu. Ljósmynd: Þorgerður Anna BjörnsdóttirAð kvöldi fyrsta dagsins í ári hestsins efndu Kínversk-íslenska menningarfélagið og Íslensk-kínverska verslunarráðið til hátíðarkvöldverðar á veitingastaðnum Bambus. Þar sem komið hafði fram í blaðaviðtali við Unni Guðjónsdóttur, að um skemmtiatriði yrð að ræða, voru góð ráð dýr. Ákvað ég að kveða vísur Bjarka Karlssonar um hið grátlega kynjanna misrétti sem tíðkaðist áður fyrr og tíðkast jafnvel enn. Notaði ég kínverska stemmu, sem ég hafði kveðið fyrir zhang Boyu, þjóðfræðing, sem var hér á ferð fyrir tæpum tveimur árum að kynna sér íslenskar stemmur og þjóðlög.

 

IN ENGLISH

 

This is a Chinese folk song performed in an icelandic traditional way as the so-called "Rímur" are chanted. It was performed at at dinner which was held by The Icelandic Chinese Cultural Society and Trade Council to celebrate the year of the horse.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Kvæðið Vestmannaeyjar eftir Kristin Bjarnason (1892-1968)

Á þessum síðum hef ég aldrei birt kvæðið um Vestmannaeyjar sem Kristinn Bjarnason, sem var vörubílstjóri í Vestmannaeyjum á 4. Áratug síðustu aldar, orti og átti að flytja á þjóðhátíð árið 1936 eða 1937, en ekkert varð af. Við þetta kvæði setti ég lag árið 1966 og var því útvarpað í fremur frumstæðri útsetningu. Seinna söng Guðmundur Jónsson það í Eyjapistli en þremur árum áður var það útsett fyrir blandaðan kór. Samkór Vestmannaeyja mun hafa sungið lagið á söngferð í Færeyjum, en í Vestmannaeyjum veit ég ekki til að lagið hafi nokkru sinni verið sungið.

Kristinn Bjarnason heimsótti okkur þriðjudaginn 9. Ágúst það sama sumar og gaf mér ljóðabók sína. Þá hljóðrituðum við tvíburarnir lestur hans á kvæðinu.

Hér fyrir neðan er kvæðið birt.

Ég hef í hyggju að láta hljóðrita útsetningu fyrir blandaðan kór á næsta vetri ef efni og ástæður leyfa.

Heimaey, þú hafsins gyðja,

hrikaleg en fögur þó,

þér er helguð öll vor iðja,

athöfn jafnt á landi og sjó.

Storkur elds skal rjúfa og ryðja,

rækta flöt úr hrauni og mó.

Framtíð þeirra og farsæld styðja fortíðin sem erfðir bjó.

Allt í kring um Eyja hringinn Ægisdætur bylta sér,

við austanrok og útsynninginn

um þær vígamóður fer,

léttast brýr við landnyrðinginn

löðra þá við klett og sker,

hæglátar við hányrðinginn

hjala milt um strönd og ver.

Heimaklettur, hafnarvörður,

hæzta tignarsvipinn ber,

eins og hann væri af guði gjörður,

gamla ey, að skýla þér.

Brimi varin Vík sem fjörður,

vatnar yfir Básasker.

„Óðinn“, Baldur“, „Bragi“, Njörður“,

Bóls á festum vagga sér.

Athyglina að sér dregur

Eyjartangi, höfði stór,

þar upp liggur vagna vegur,

víðast kringum fellur sjór.

Fuglabjörg á báðar hendur,

brekka grösug ofan við.

Efst þar vitavirkið stendur vermdarstöð um mannlífið.

Fuglamæður fanga vitja

fjölbreytt eru þeirra störf,

aðrar uppi á syllum sitja.

söngva hefja af innri þörf. Undirleikinn annast sjórinn,

yrkir stormur lag og brag.

Þúsund radda klettakórinn

kyrjar þarna nótt og dag.

Hömrum krýndi Herjólfsdalur,

hátíðanna meginstöð,

skín nú eins og skemmtisalur,

skreytt er fánum tjalda röð.

Njótum dagsins, hrund og halur,

hresst og yngd við sólarböð.

Truflar enginn súgur svalur

söngva hefjum frjáls og glöð.

Hundruð fólks á staðinn streymir,

stundin sú er mörgum kær.

Saga engum gögnum gleymir

þótt gamli tíminn liggi fjær,

skyggnan anda örlög dreymir, atburðirnir færast nær:

Stærstu rökin staðreynd geymir,

stóð hér forðum Herjólfs bær.

Rústir hans úr rökkri alda

risið hafa í nýja tíð,

þar sem skriðan kletta kalda

kviksett hafði fé og lýð.

Sögn er krummi kænn og vitur

konu einni lífið gaf,

meðan urðarbyljan bitur

bóndans setur hlóð í kaf.

Hamragarðsins hæsti tindur,

hjúpaður fjarskans bláa lit,

um þig leikur vatn og vindur,

vanur súg og fjaðraþyt.

Veit ég margan grípur geigur

gægjast fram af hárri brún,

þar sem aðeins fuglinn fleygur

flögrar yfir strandbergs hún.

Yfir þessu undralandi

einhver töfraljómi skín,

sem perludjásn á bylgjubandi

blómgar eyjar njóta sín.

Sær og vindur síherjandi

sverfa fuglabjörgin þín.

Þó er sem vaki vermdarandi,

veiði svo hér aldrei dvín.

Njóttu allra góðra gjafa,

glæsilega eyjan vor,

meðan röðulrúnir stafa

Ránar-flöt og klettaskor.

F'öður, móður, ömmu og afa

enn þá greinast mörkuð spor.

Æskan má ei vera í vafa

að vernda drengskap, kraft og þor.

Sit ég hér á sumarkveldi,

silfrar jörðu döggin tær,

vestrið líkt og upp af eldi

aftanroða á fjöllin slær.

Nóttin vefur dökka dúka,

dularfull og rökkurhljóð.

Blítt í sumarblænum mjúka

báran kveður vögguljóð.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ingimar Halldórsson á fundi Kvæðamannafélagsins Iðunnar ásamt Arnþóri Helgasyni



Á fundi Kvæðamannafélagsins Iðunnar, sem haldinn var 5. Apríl
síðastliðinn, var dagskráin fjölbreytt að vanda. Þegar leið að lokum fundarins
kvað kvæðamaðurinn snjalli, Ingimar Halldórsson vísur eftir hagyrðinginn vinsæla,
Gísla Ólafsson frá Eiríksstöðum. Að endingu kváðu undirritaður og Ingimar
Lækjarvísur Gísla við tvísöngsstemmu þeirra Páls og Gísla. Nánar er fjallað um kveðskapinn
og vísurnar á vef Iðunnar.



Hljóðritað var með Nagra Ares BB+ og notaðir tveir Røde
NT-2A hljóðnemar í MS-uppsetningu ásamt Røde NT-1A, sem var við ræðustólinn.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Litla hagyrðingamótið 8. mars 2013



Á fundi Kvæðamannafélagsins Iðunnar þann 8. mars
síðastliðinn var að venju haldið hið svokallaða Litla hagyrðingamót. Hagyrðingar
á palli voru Ingi Heiðmar Jónsson,  Sigurður Sigurðarson og Steindór
Andersen. Yrkisefni voru: þeir - þær - þau.



Allir mættu og Ingi Heiðmar hafði að auki vísur frá Jóa í
Stapa sem þykir sjálfkjörinn varamaður eða aukamaður þegar færi gefst. Vísur og
hljóðrit eru á http://rimur.is. Auk þess er
hljóðskjalið á þessari síðu.



Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Langdregin aðventuhátíð á Austurvelli

 

Sumar athafnir eru í svo föstum skorðum að fátt breytist nema ræðumenn og þeir sem kynna eða skemmta.

Því hefur verið haldið fram að jólin séu fyrst og fremst hátíð barnanna og um leið aðventan. Í dag, fyrsta sunnudag í aðventu var kveikt á jólatrénu á Austurvelli, sem er gjöf Óslóborgar til Reykjavíkur og á þessi hefð sér rúmlega 6 áratuga sögu.

Lúðrasveit Reykjavíkur hóf að leika jólalög um kl. 15:30. Það spillti nokkuð hljómi sveitarinnar að hann var magnaður upp með hátölurum. Um það bil 5 mínútur yfir 4 síðdegis hófust ræðuhöld: kynnir, norski sendiherrann, gestur frá Ósló og Jón gunnar Kristinsson, borgarstjóri Reykjavíkur. Loksins um kl. 16:20 var kveikt á jólatrénu og lustu þá viðstaddir upp fagnaðarópi.

Um kl. 4 fór að fjölga mjög á Austurvelli og voru þar foreldrar, afar og ömmur með börn og barnabörn. Mestur hluti fólksins þyrptist umhverfis tréð og beið þar óþreyjufullur, en þangað heyrðust hvorki kórsöngur né ræðuhöld.

Hér fylgir örstutt hljóðdæmi. Fyrst leikur Lúðrasveit Reykjavíkur hið undurfagra lag Sigvalda Kaldalóns, Nóttin var sú ágæt ein. Síðan bregðum við okkur að jólatrénu, reynum að greina lokaorð Jóns Gunnars og síðan upphafið af Heims um ból.

Mælt er með því að borgarstjórn endurskoði þessa hátíð og geri hana skemmtilegri fyrir börnin. Flest þeirra virtust á heileið þegar jólasveinana bar að garði. Ræðuhöldin duga í Ráðhúsinu.

Notast var við Olympus LS-11. Mælt er með góðum heyrnartækjum.

 

The Christmas Tree of Central Reykjavik

 

The city of Oslo donates a big christmas tree to Reykjavik City every year and has done so since 1951. On the first sunday of advent lights are turned on the tree. Then at least 3, if not 4 speeches are held and the children must wait until the lights are turned on.

today people started to gather around at Austurvöllur in Reykjavik where the Reykjavik Brass Band began to play some christmas songs at 15:30. At around 16:00 the crowd moved towards the christmas tree to be closer to it. Then the speeches started and noone seemed to listen as nothing could be heard.

This compacted recording depicts the atmosphere during the ceremony. First the brass band playing a christmas song by Sigvaldi Kaldalóns, then the last words of the mayor-s speech, he counting down until the lights are turned on and at that time a quire starts singing Wholy night. Afterwards the Icelandic christmas boys came to amuse the children, but most of them had got enough and were leaving.

Good headphones recommended.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ormur Ólafsson, kvæðamaður

Á fundi í Kvæðamannafélaginu Iðunni, sem haldinn var 5. október síðastliðinn, minntist formaður þess, Ragnar Ingi Aðalsteinsson, Orms Ólafssonar, fyrrum formanns Iðunnar og Steindór Andersen kvað nokkrar vísur eftir hann við stemmur sem Ormur kvað gjarnan.

Í janúar 2005 tók ég viðtal við Orm, en þá stóð yfir gerð útvarpsþátta um Silfurplötur Iðunnar. Hluta viðtalsins var útvarpað í einum þáttanna, en meginhluta þess nokkru síðar.

Með þessari færslu fylgja tvö hljóðrit. Hið fyrra er með minningarorðum Ragnars Inga og kvæðaskap Steindórs. Hið seinna er óstytt viðtal við Orm Ólafsson. Þar koma fram ýmsar heimildir um starf Iðunnar, en Ormur var í framvarðasveit félagsins um fjögurra áratuga skeið.

Þeim, sem hafa áhuga á að kynna sér Kvæðamannafélagið Iðunni skal bent á http://rimur.is


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Smári Ólason flytur gamlan jólasálm og fjallar um uppruna orðsins hátíð

Smári Ólason er manna fróðastur um sálmasöng hér á landi og ýmislegt sem snertir helgisiði.

Á fundi Kvæðamannafélagsins Iðunnar, 8. desember 2006 fræddi hann fundargesti um uppruna orðanna hátíð og tíð. Þá söng hann gamlan sálm sem fluttur var að kvöldi aðfangadags jóla.

Þessu efni var útvarpað í þættinum Vítt og breitt 21. desember 2006. Smári veitti góðfúslega leyfi sitt til birtingar efnisins á Hljóðblogginu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Nýr íslenskur talgervill í burðarliðnum

 

Í dag var efnt til kynningar á nýjum, íslenskum talgervli, sem unnið er að á vegum Blindrafélagsins, félags lesblindra og fleiri aðila. Sjá m.a.

Talgervlaverkefni Blindrafélagsins

 

Nú hefjast prófanir á röddunum og er gert ráð fyrir að talgervillinn verðði jafnvel tilbúinn til dreifingar í maí á næsta ári. Honum verður dreift til blindra, sjónskertra og lesblindra notenda þeim að kostnaðarlausu.

 

Hér fylgir hljóðsýni af upplestri Dóru og Karls á texta úr íslenskri kennslubók. Tekið skal fram að ekkert hefur verið átt við leshraðann, en hann geta notendur væntanlega aukið og minnkað þegar talgervillinn hefur verið tengdur skjálesurum.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

"Viltu ekki spila fyrir þá nýja þjóðhátíðarlagið?"

Í dag er þess minnst að 100 ár eru liðin frá fæðingu Oddgeirs Kristjánssonar, þess manns sem einn getur kallast þjóðartónskád Vestmannaeyinga.

Oddgeir setti sterkan svip á bæjarlífið í Vestmannaeyjum. Hann stjórnaði Lúðrasveit Vestmannaeyja í tæpa þrjá áratugi, lék í hljómsveitum, samdi þjóðhátíðarlög áratugum saman, kenndi söng í Barnaskóla Vestmanneyja, þjálfaði hljóðfæraleikara og var hvarvetna hrókur alls fagnaðar þar sem hann átti leið um. Oddgeir var, auk þess að vera tónskáld, orðhagur maður og setti einatt saman kviðlinga sem flugu víða.

Oddgeir Kristjánsson hafði áhrif á alla sem kynntust honum og þegar hann lést, 18. febrúar árið 1966, varð almenn sorg í Vestmannaeyjum. Allir vissu að skaparinn hafði hrifið til sín einn af eyjanna bestu sonum.

Í morgun rifjaðist upp fyrir mér dálítið atvik frá sumrinu 1962. Ég sótti þá píanótíma hjá Hrefnu, dóttur Oddgeirs. Einhvern tíma miðsumars, þegar við tvíburarnir vorum stadir hjá Hrefnu, kom Oddgeir inn í stofuna og spurði hvort hún vildi ekki spila fyrir okkur nýja þjóðhátíðarlagið. Það hét þá ekkert annað, því að textinn var ekki tilbúinn, en hlaut svo nafnið "Ég veit þú kemur".

Í minningu minni hafði Hrefna stutt forspil að laginu. Okkur ber ekki saman um upphafið, en í huga mínum mótaðist minningin með þeim hætti sem meðfylgjandi hljóðrit ber með sér.

Lag þetta varð síðan eitt af fyrstu lögunum sem Gísli Helgason, blokkflautuskáld úr Vestmannaeyjum, lærði og olli tímamótum í lífi hans.

Í kvöld verður efnt til tónleika í eldborgarsal Hörpu, þar sem flutt verða lög Oddgeirs Kristjánssonar. Er það tilhlökkunarefni hverjum þeim, sem ann tónlist þessa merka manns og tónlistarfrömuðar.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Vísnasöngur á Iðunnarfundi

 

Sitthvað bar til tíðinda á fundi Kvæðamannafélagsins Iðunnar, sem haldinn var í B-sal Gerðubergs föstudagskvöldið 4. nóvember.

 

Á meðal flytjanda var Eggert Ólafur Jóhannsson, vísnasöngvari, er söng nokkrar vísur eftir Cornelis Vresvijk og lék undir á gíta. Að lokum söng hann lag eftir Magnús Einarsson.

 

Eggert kom fram á fundi Iðunnar 7. janúar síðastliðinn og vakti þá verðskuldaða athygli.

http://www.hljod.blog.is/blog/hljod/entry/1131854/

 

Notaður var Shure VP88 víðómshljóðnemi og Nagra Ares BB+ hljóðriti. Vegna þess hvað salurinn er hljómlítill var bætt dálitlum endurómi við hljóðritið.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband