Færsluflokkur: Ferðalög

Íslenskan á Umferðarmiðstöðinni

 

Í dag átti ég leið á Umferðarmiðstöðina við Vatnsmýri í Reykjavík. Þar er starfsfólkið lipurt og vill viðskiptavinum allt hið besta.

Nokkuð virðist skorta á þjálfun sumra sem þar eru við störf. Ég fékk mér sæti í biðsalnum og dró upp Olympus LS-11 varahljóðritann, en hann hefur nýlega hlotið 3. verðlaun sem tækninýjung ársins 2010 á sviði hljóðrita. Hugðist ég hljóðrita umhverfið eins og stundum áður. Fremur lítil umferð var um miðstöðina. Þó mátti heyra rennihurðina fara fram og aftur um dyraopið, skemmtilegt skóhljóð, ferðatösku dregna áfram, mas og skvaldur.

Í tvígang var kallað í hátalarakerfi hússins. Fyrri tilkynningin skildist alls ekki. Ef grannt er hlustað á seinni tilkynninguna, sem hefst á 27. sek. 3. mínútu (02:27) heyrist ekki betur en að farþeggar til Hveragerði, Selfoss, Hvolsvöllur, Flúðir og Borgarfjörður séu beðnir að ganga um borð - ekkert eignarfall.

Íslendingar hafa furðulítinn metnað fyrir hönd þjóðtungu sinnar á sjálfu afmælisári Jóns Sigurðssonar. Væri ekki ráð að kenna starfsfólki Umferðarmiðstöðvarinnar hvernig eigi að lesa slíkar tilkynningar? Ætli tilkynningalestur sé kenndur á ferðamálabrautum framhaldsskólanna?

Hljóðritað var rétt fyrir kl. 17:00 á 24 bitum, 44,1 kílóriðum. Notaður var Olympus LS-11 hljóðriti með áföstum hljóðnemum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Gestapistill frá Kanaríeyjum

Að þessu sinni er Gísli Helgason gestahljóðritari Hljóðbloggsins, en þau Herdís Hallvarðsdóttir nutu veðurblíðunnar á Kanaríeyjum fyrir skömmu.

Gísli hafði með sér lítið Olympus-tæki og setti saman þennan pistil eftir að heim kom. Hér er glöggt dæmi um hvað hægt er að gera með einföldum tækjum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Rafbíl reynsluekið á Akureyri

Í þættinum Tilraunaglasinu í dag útvarpaði Pétur Halldórsson ökuferð með rafbíl sem Orkusetrið á Akureyri hefur fengið til prófunar.

Bíllinn heitir Mitsubishi MIEV og nú er hann væntanlegur frá franska bílarisanum PSA líka undir heitunum Citroën C-Zéro og Peugeot IOn, nánast óbreyttir. Sjá vefsíðu Orkuseturs,

www.orkusetur.is.

Í bílnum er 47 kílóvatta rafmótor sem samsvarar 64 hefðbundnum hestöflum. Litíum-rafhlaða er í bílnum, 330 volt, og hún á að jafnaði að endast til um 130 km. aksturs. Innan bæjar á vetrum endist hún þó væntanlega mun skemur því kuldinn hefur áhrif og í kuldanum notar fólk miðstöðina meira o.s.frv. Bíllinn er 15 sekúntur að ná 100 kílómetra hraða úr kyrrstöðu og kemst hraðast 130 km. á klukkustund. Hann tekur fjóra í sæti að bílstjóra meðtöldum og farangursrýmið er 166 lítrar. Þessar tölur eru allar sambærilegar við minnstu bensín- og díselbíla nema hvað hámarkshraði þeirra er yfirleitt nokkru meiri. Rafbíllinn er stilltur þannig að hann komist ekki hraðar en þetta.

Pétur notaði Nagra ARES+ hljóðpela og Shure VP88 víðómshljóðnema. Hlustendur eru hvattir til þess að hlusta á hljóðritið í góðum heyrnartólum og skynja um leið það sem gerist innan dyra og utan bílsins.

Slóðin á vef Tilraunaglassins er

http://ruv.is/tilraunaglasid


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Reiðhjól og flutningabíll fara yfir brúna á Jökulsá á Breiðamerkursandi

Í ágústbyrjun 1998 vorum við Elín á leið austur á Stöðvarfjörð. Áðum við hjá lóninu á Breiðamerkursandi og nutum veðurblíunnar. fórum við undir eystri sporð brúarinnar og hófumst handa við hljóðritun. Ég var með Sony minidisk-tæki og Sennheiser MD21U hljóðnema. Skömmu eftir að við hófumst handa fór reiðhjól vestur yfir brúna og rétt á eftir stór og þung vörubifreið. Hvílíkur munur! Brúin eins og skall niður og stundi lengi á eftir.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Áhrif vindsins og nýting hans

Um verslunarmannahelgina 2007 vorum við Elín í Skálholti og gerðum þaðan út um suðurland. Norðan hvassviðri var allan tímann og setti það svip sinn á það sem var hljóðritað. Ég hafði meðferðis Nagra Ares-m hljóðrita, víðómshljóðnema sem smellt er á tækið og einn ME62 hljóðnema frá Sennheiser. Ég útvarpaði örstuttum pistli um ferðina og verða hlustendur að sætta sig við kynningar mínar því að frumgögnin eru mér ekki tiltæk af einhverjum ástæðum. Atriðin eru þessi:

Vindurinn leikur sér að fánaborginni í Skálholti, pólskir ferðalangar berjast á móti vindinum í Þjórsárdal, Lars Eek leikur á harmoniku í Árnesi og lúpínan sprengir fræbelgina.

Til þess að ná hljóðinu í fánaborginni varð ég að leggjast á jörðina. Hið sama var upp á teniningnum með lúpínuna. Þá notaði ég ME62 og lét hann eiginlega liggja á jörðinni. Annars hefði vindurinn náð yfirhöndinni, en gnauðið heyrist eigi að síður.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Austankaldinn og gróðurinn

Vindurinn gælir við gróðurinn (ljósmynd)

Ormurinn blái hefur fengið að þenja sig í uppsveitum Árnessýslu. Laugardaginn 3. júlí tókum við Árni Birgisson allharðan 20 km sprett og var Árni stýrimaður. Mánudaginn 5. júlí var svo haldið í Skaftholt og var Elín þá stýrimaður. Þann dag hjóluðum við nær 60 km.

Í dag, þriðjudaginn 6. júlí, héldum við að Hruna. Fórum við lengri leiðina, hjóluðum norður á bóginn og beygðum síðan afleggjarann sem liggur heim að Hruna og fleiri bæjum. Er það fögur leið og skemmtileg, en vegurinn misjafnlega ósléttur. Austan kaldi var á og 15-16 stiga hiti.

Þegar við komum að Hruna fangaði athygli okkar útsprungin rós sem er skammt frá sáluhliðinu. Þar voru flugur á iði og öfluðu sér fanga. Hafði Elín orð á að ég ætti að hljóðrita þær en ég nennti því ekki, langaði frekar í nesti og það bitum við undir suðurvegg kirkjunnar. Þegar ég hafði orð á að nú væri mál að hljóðrita flugurnar hélt Elín því fram að þær væru sjálfsagt farnar í kaffi og reyndist hún hafa rétt fyrir sér, sú góða kona. Maður skyldi aldrei láta tækifæri ganga sér úr greipum og það veit Elín manna best. Ég stillti mér samt upp við rósina og hljóðritaði umhverfið. Vindurinn hvein í gróðrinum. Austanáttin hafði heldur farið vaxandi á meðan við námum staðar að Hruna og var magnþrungið að hlusta á samleik hennar og gróðursins. Gerði ég enga tilraun til að hreinsa hljóðritið heldur lét það flakka á vefinn eins og guð ákvað að hafa það.

Myndina tók Elín Árnadóttir, eiginkona mín og stýrimaður á Orminum bláa, en hún er sérstakur hirðljósmyndari Hljóðbloggsins.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hvernig hljóma togvíraklippur?

Togvíraklippurnar reyndust vel í baráttunni við landhelgisbrjóta (ljósmynd Elínar Árnadóttur)Þann 29. júní 2009 skoðuðum við hjónin okkur um á Ísafirði. Við eyddum allnokkrum tíma á Sjóminjasafninu sem er fyrir margra hluta sakir athyglisvert og mættu Vestmannaeyingar margt af Ísfirðingum læra í þeim efnum. Helst þótti mér á skorta að hljóð heyrðust úr horni. Einhver af gömlu bátunum með glóðarhausvél hefði mátt vera í gangi og minna á gamla daga.

Þegar við héldum áleiðis frá safninu sáum við hvar þrír piltar börðu einhver tól, en að sögn þeirra var verið að undirbúa þau undir málningu. Í ljós kom að þetta voru hinar frægu togvíraklippur sem ollu breskum togarasjómönnum sem mestu tjóni í síðustu þorskastríðunum. Féllust piltarnir á að leika listir sínar en ég hét þeim að útvarpa listaverkinu við fyrstu hentugleika. Því er hvaða útvarpsstöð sem er heimilt að senda þessa hljóðmynd út á öldur ljósvakans.

Vakin er athygli á heiti hljóðritsins. Áréttað skal að piltarnir voru þrír enda sannar myndin það svo að ekki verður um villst. Gaman væri að fá nöfn piltanna í athugasemd við þessa færslu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Búðaráp í Beijing 9. ágúst 1986

Við Emil Bóasson dvöldumst í Beijing um nokkurra vikna skeið sumarið 1986. Helst höfðum við það fyrir stafni að hitta forystumenn í kínversku mennta- og menningarlífi ásamt hagfræðingum, ferðamálafrömuðum og Íslandsvinum. Öfluðum við efnis í þætti handa ríkisútvarpinu sem tengdust flestir með einum eða öðrum hætti Beijing. Við sóttum einnig heim ýmsa trúarsöfnuði og sumt af þessu efni rataði inn í þætti okkar sem urðu 8 ef ég man rétt. Okkur var hvarvetna vel tekið. Kann skýringin að hafa verið sú meðal annars að Steingrímur Hermannsson var þá væntanlegur í heimsókn um haustið. Kínversku viáttusamtökinn áttu einnig drúgan hlut að málum.

Við fórum á stúfana að morgni laugardaginn 9. ágúst 1986 og gengum á milli verslana í hverfinu Jiaodakou þar sem við bjuggum. Emil, sem er afbragðs sögumaður og vel máli farinn, lýsti varningnum sem á boðstólum var og sagði frá verði hlutanna. Rétt er að taka fram að þá voru 12 íslenskar krónur í einu Rnminbi og umreiknuðum við verðið jafnóðum til íslensks verðgildis. Þá voru meðalaun embættismanna 100 Renminbi og höfðu þá hækkað um tæp 90% frá árinu 1975.

Gríðarlegar breytingar harfa orðið á kjörum almennings á þeim rúmu tveimur áratugum sem liðnir eru síðan þetta hljóðrit var gert. Auk Emils ber ýmislegt fyrir eyru. Hlustendur taka væntanlega eftir því hvað reiðhjól voru áberandi í umferðinni á þessum tíma. Samt þótti okkur nóg um bílaumferðina í miðborg Beijing árið 1986.

Hljóðritað var með Sony TCD5 snældutæki og Shure 63L hljóðnema.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Rigning í Beijing og á Ísafirði

Vatnið er ótrúleg uppspretta alls kyns hljóða.

Þann 9 ágúst 1986 átti ég mjög athyglisvert viðtal við tvær ungar stúlkur austur í Bejing. Vinurminn og félagi, Emil Bóasson, lagði einnig til spurningar enda vorum við saman við að afla okkur efnis í 8 þætti fyrir Ríkisútvarpið. Eftir að viðtalinu lauk urðu nokkuð ákafar umræður á milli okkar Emils og stúlknanna og hlaust af nokkur hávaði. Við bjuggum þá á gistiheimili Vináttusamtakanna í Beijing sem er í gömlu og rótgrónu hverfi sem nefnist Jiaodakou eða Vegamót. Kom húsvörður til þess að vita hvað gengi á. Honum var sagt að einungis stæðu yfir rökræður og hvarf hann á braut. Stúlkurnar hurfu líka á brott skömmu síðar.

Þegar þær voru nýfarnar skall fyrirvaralítið á ógurlegt úrhelli með þrumum og eldingum. Við Emil ræddum að þetta væri eins og í byltingaróperu, en þegar leikar stæðu þar hæst skylli einatt á þrumuveður, samanber 1. þátt Rauðu kvennaherdeildarinnar. Ég stóðst ekki mátið þrátt fyrir áhyggjur af stúlkunum, opnaði dyrnar og hljóðritaði ósköpin. Einungis þéttriðið flugnanet var á milli mín og rigningarinnar.

Hinn 29. júlí árið 2009 vorum við Elín á Ísafirði. Um 5-leytið síðdegis fór hún að kaupa í matinn en ég beið í bílnum. Þungbúið hafði verið um daginn en þegar Elín fór í innkaupaleiðangurinn gerði hellidembu. Ég stóðst ekki mátið og hljóðritaði það sem fyrir eyru bar.

Heilmikill munur er á þessum rigningum. Fyrra hljóðritið er gert með Sony TCD5. Notuð var Sony metal-snælda. Hljóðneminn var Sennheiser MD21U.

Tuttug og fjórum árum síðar notaði ég Nagra Ares BB+ og tvo Sennheiser ME62 hljóðnema. Rigningin á Ísafirði var ekki eins þétt og í Beijing og hvorki fylgdu þrumur né eldingar.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Útidansleikur í Maastricht

Ég hef tvisvar komið til Maastricht í Hollandi, árið 1992 og 2005. Elín var með mér í bæði skiptin og árið 2005 slóst Hringur Árnason, þá á 11. ári, í för með afa og ömmu.

Ég eyddi tímanum að mestu á námskeiði um löggjöf Evrópusambandsins um málefni fatlaðra. Námskeiðinu lauk laugardaginn 25. júní. Veðrið var yndislegt og ákváðum við að skoða borgina. Á rölti okkar rákumst við á hóp fólks sem skemmtil sér konunglega við dans á litlu torgi. Á palli stóðu tveir tónlistarmenn, trumbuslagari og harmonikuleikari. Annar þeirra söng af hjartans list.

Leikur þeirra félaganna minnti mig á jólaböllin í Vestmannaeyjum í árdaga en þar léku menn alls kyns lög á trumbur og harmoniku, jafnvel bítlalög. Ég var með Nagra Ares BB hljóðpela meðferðis og dreypti ég á hann einu lagi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband