Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Heimurinn skoðaður með hljóðsjá - perceiving the world with sound-radar

Á þessari síðu er skemmtilegur þáttur um „hljóðsjón“ sem hefur verið þekkt fyrirbæri á meðal blindra um nokkurt skeið. Nú hefur þessi tækni verið þróuð fyrir Android farsíma og tekur um þessar mundir miklum framförum. Hægt er að nýta hljóðsjónarforritið til að finna hluti, skoða lögun þeirra, varast hindranir o.s.frv.

Þátturinn, sem er á ensku,  fylgir þessari færslu sem mp3-skrá. Ef til vill getum við gert tilraunir með þetta fyrirbæri hér á landi.

 

The so-called soundvision has been a known phenomen in the field of technology for the blind for over 50 years. Now this radar technology has been adapted for the Android phones. See the link above and the attached MP3-file

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Leynifélagið í heimsókn hjá Birgi Þór Árnasyni

Í kvöld var útvarpað viðtali við Birgi Þór Árnason, átta ára gamalt barnabarn okkar Elínar, í þættinum "Leynifélagið" á Rás eitt. Tryggir hlustendur Hljóðbloggsins kannast við sveininn, enda hafa við hann birst nokkur viðtöl undanfarin ár á þessum vettvangi.
Okkur Elínu ömmu þótti viðtalið vel heppnað og því er það birt hér.
Þeir sem vilja heyra fleiri viðtöl við piltinn og bræður hans, Hring og Kolbein Tuma, er bent á flokkinn "Vinir og fjölskylda" á þessum síðum.

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Nýr íslenskur talgervill lofar góðu.

Miðvikudaginn 15. þessa mánaðar var nýr íslenskur talgervill kynntur formlega og hafa birst um það fréttir í fjölmiðlum síðustu daga. Frú Vigdís Finnbogadóttir, verndari verkefnisins, hleypti honum af stokkunum. Um er að ræða karlmanns- og kvenmannsrödd.

Talgervillinn er mikil framför frá því sem notendum talgervils hefur boðist að hlýða á hér á landi. Eftir er að sníða vissa annmarka af talgervlinum. sumt gæti þó verið erfitt að lagfæra í fljótu bragði, en hugbúnaðinn verður hægt að uppfæra og bæta eftir því sem efni standa til.

Hér skulu nefnd nokkur dæmi:

 

1.    Of lítill munur er á hrynjandi eftir því hvort á eftir fer komma eða punktur. Á þetta einkum við um karlröddina.

2.    Allmikið ber á svokallaðri p-sprengingu í kvenröddinni í orðum eins og upphrópun. Þar virðist vera um galla í hljóðriti að ræða.

3.    Framburður verður nokkuð óskýr ef hert er á lestrinum. Kann það m.a. að stafa af því að lesarar hafi lesið of hægt. Þetta er einkum áberandi í upplestri karlraddarinnar.

4.    Þá ber nokkuð á því að síðasta atkvæði í orðum, sem karlröddin les, hverfi að mestu í upplestri.

Þetta eru vissulega smámunir, sem vonandi verða lagfærðir í náinni framtíð. Aldrei verður brýnt nægilega vel fyrir aðstandendum verkefna, sem snúast um málefni fatlaðra, að neytendur séu hafðir með í ráðum á öllum stigum verkefnisins.

 

Að öðrum mönnum ólöstuðum skal formanni blindrafélagsins, Kristni Halldóri einarssyni, þökkuð sú þrautsegja og útsjónarsemi sem hann hefur sýnt við vinnslu þessa verkefnis. Notendum íslenska talgervilsins er hér með óskað til hamingju með þennan merka áfanga.

Þessari færslu fylgir frétt úr Morgunblaðinu í dag, sem Stefán Gunnar Sveinsson hefur skrifað. Eru lesendur hvattir til að hlusta á báðar raddirnar.

 

A new Icelandic Speech synthesizer

 

On August 15 Mrs. Vigdís Finnbogadóttir, former president of Iceland, launced a new, Icelandic speech synthesizer. To this blog is attached an mp3-file containing an article from Morgunblaðið by Stefán Gunnar Sveinsson, read by the new voices.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Nýr íslenskur talgervill í burðarliðnum

 

Í dag var efnt til kynningar á nýjum, íslenskum talgervli, sem unnið er að á vegum Blindrafélagsins, félags lesblindra og fleiri aðila. Sjá m.a.

Talgervlaverkefni Blindrafélagsins

 

Nú hefjast prófanir á röddunum og er gert ráð fyrir að talgervillinn verðði jafnvel tilbúinn til dreifingar í maí á næsta ári. Honum verður dreift til blindra, sjónskertra og lesblindra notenda þeim að kostnaðarlausu.

 

Hér fylgir hljóðsýni af upplestri Dóru og Karls á texta úr íslenskri kennslubók. Tekið skal fram að ekkert hefur verið átt við leshraðann, en hann geta notendur væntanlega aukið og minnkað þegar talgervillinn hefur verið tengdur skjálesurum.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Breiðdalssetur - vaxandi menningar- og vísindastofnun

Erla Dóra Vogler er verkefnastjóri á Breiðdalssetri.

Á Breiðdalsvík er starfrækt Breiðdalssetur. Setrið er til húsa í Gamla kaupfélaginu, en það var byggt árið 1906. Húsið hefur nýlega verið endurnýjað og gert aðgengilegt. Þar er m.a. lyfta á milli hæða svo að flestir sem fara þar um eiga að geta notið þeirra sýninga sem eru í setrinu.

 

Á setrinu eru um þessar mundir sýningar um tvo merka vísindamenn, sem hvor um sig markaði djúp spor í vísindasögu Austfjarða. Á jarðhæð er sýning um Dr. George Walker, breskan jarðfræðing, sem rannsakaði m.a. berglög á Austurlandi og skrifaði um þau merkar vísindagreinar.

 

Á efri hæð hússins er sýning um Dr. Stefán Einarsson frá Höskuldsstöðum í Breiðdal, prófessor, en hann var einn af fremstu málvísindamönnum Íslendinga á síðustu öld. Hann vann mestan hluta ævi sinnar í Bandaríkjunum, en hafði óbilandi áhuga á varðveislu þjóðlegra fræða og varð fyrstur íslenskra fræðimanna til þess að hljóðrita á segulbönd þjóðlegan fróðleik, svo sem frásagnir, vísur og kvæðalög, sem tengdust Breiðdalnum. Þá var hann einn af hvatamönnum útgáfu safnritsins Breiðdælu, sem enn kemur út. Á hluta þessa merka hljóðritasafns má hlusta í Breiðdalssetri ásamt ýmsu öðru sem tengist ævi Stefáns og störfum, s.s. bréfaskriftum þeirra Halldórs Laxness.

 

 

Erla Vogler, verkefnastjóri Breiðdalsseturs, sagði mér frá starfi þess, er ég átti þar leið um ásamt Hrafni Baldurssyni. Þess má geta að á fimmtudagskvöldum er gengið um þorpið á Breiðdalsvík og saga þorpsins rakin.

 

Á heimasíðu setursins eru einnig fleiri upplýsingar, en stöðugt bætist nýtt efni á síðuna.

http://breiddalssetur.is/


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ljósmyndað með 130 ára gamalli vél

Hörður Geirsson tekur ljósmyndir með vél frá árinu 1880, en linsan er frá 1864.

Hörður Geirsson, ljósmyndari og starfsmaður Minjasafnsins á Akureyri, hefur á undanförnum árum tileinkað sér þær aðferðir sem notaðar voru í árdaga ljósmyndunar. Hann ferðast nú um landið og tekur myndir af stöðum sem myndaðir voru eftir 1860. Meðferðis hefur hann bandaríska ljósmyndavél sem smíðuð var árið 1880. Linsan er frá árinu 1864. Hörður er nú að láta smíða svipaða vél og verður hún tilbúin eftir nokkra mánuði.

Myndirnar eru geymdar á glerpötum og við framköllun þeirra þarf ýmiss konar efni sem löngu er hætt að nota við ljósmyndaframköllun. Hörður varð á vegi okkar Elínar við bæinn Teigarhorn í Berufirði í dag, 13. júlí 2011. Í næðingnum tók ég hann tali.

Hljóðritað var með Nagra Ares BB+ og Sennheiser ME62 hljóðnema. Skorið var af 100 riðum vegna vindsins.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Refurinn og sambúð hans við manninn

Í vetur greindi Morgunblaðið frá því að sést hefði til refs innan borgarmarka Reykjavíkur. Í sömu grein var einnig greint frá því að æ oftar sæist nú til refa á höfuðborgarsvæðinu.

Vorið 2007 útvarpaði ég þremur pistlum um refinn í þættinum Vítt og breitt.

Í fyrsta þættinum fjallaði Indriði Aðalsteinsson, fjárbóndi á Skjaldfönn í Skjaldfannardal um afleiðingar stofnunar friðlandsins á Ströndum.

Viku síðar greindi Páll Hersteinsson, prófessor, frá rannsóknum sínum á íslenska refnum og gat um sitthvað sem snertir lífsafkomu refsins.

Þriðji pistillinn fjallaði um tilraunir manna til þess að útrýma refnum, þar á meðal með eftirhermum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Látinn maður forðar sonarsyni sínum frá bráðum bana

Bryndís Bjarnadóttir frá Húsavík

Bryndís Bjarnadóttir fæddist á Húsavík árið 1923, dóttir hjónanna Bjarna Benediktssonar og Þórdísar Ásgeirsdóttur, merkra heiðurshjóna. Ég heimsótti hana fyrir skömmu og sagði hún mér sitthvað af ættingjum okkar, foreldrum sínum og sjálfri sér. Bryndís er eins og systkini hennar, mikil sagnakona og minnug. Þess má geta að undir flokknum vinir og fjölskylda á þessum síðum, eru tvær frásagnir bróður hennar, Vernharðs Bjarnasonar, af samstarfi og kynnum sínum af Helga Benediktssyni og vélskipinu Helga VE 33, en Vernharður vann hjá frænda sínum í nokkur ár í byrjun seinni heimsstyrjaldarinnar.

Mánudaginn 16. ágúst síðastliðinn heimsótti ég Bryndísi og sagði hún mér þá frá því er faðir mannsins hennar, Þórhallur Sigtryggsson, bjargaði lífi Sigtryggs Sigtryggssonar, sonar Bryndísar og Sigtryggs Þórhallssonar haustið 1960, en Sigtryggur var þá 10 ára gamall. Lesendur Morgunblaðsins kannast flestir við Sigtrygg, en hann hefur unnið á blaðinu árum saman.

Frásögn Bryndísar ber ljósan vott um skyggnigáfu þá eða ófreski sem er algeng í ættinni. Þess skal getið að farðir Bryndísar og afi minn, Benediktt Kristjánsson, voru bræðrasynir og erum við Sigtryggur Sigtryggsson, sem greinir frá í frásögn móður hans, því fjórmenningar.

fyrir þá sem hafa gaman af tæknimálum skal þess getið að notaður var AKG DM-230 hljóðnemi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Útvarpsstöðvar í Beijing, keisargrafirnar í Xi'an o.fl.

Um miðjan 10. áratuginn hófst merkileg þáttaröð í Ríkisútvarpinu undir nafninu Vinkill. Hafði Jón Hallur Stefánsson umsjón me´ð þáttunum. Markmiðið var m.a. að beita óhefðbundnum aðferðum við gerð útvarpsþátta.

Ég gerði nokkra vinkilsþætti árin 1998-2000. Hér birtist einn þeirra, Kínavinkill sem útvarpað var í júní 2000.

Í aprílmánuði vorum við þrenn hjón saman á ferðalagi um Kína. Í þættinum birtast nokkrar svipmyndir.

1. Forvitnast er um efni útvarpsstöðva í Beijing 11. apríl árið 2000.

2. Svipast er um við hótel í qingdao.

3Farið er í heimsókn í skóla fyrir þroskahefta.

4. Að lokum er komið við í Xi'an og leirherinn skoðaður. Wang Fanje segir frá því er hann fann menjar um leirherinn mikla árið 1974. Síðan eru nokkrar leirstyttur skoðaðar nákvæmlega. Ung stúlka, sem var túlkur á safninu, var svo ötul að vekja athygli mína á því sem fyrir augu bar að ég gafst upp á að þýða það sem hún sagði. Þetta var í annað skipti sem ég fékk að skoða þennan leirher og snerta það sem mig lysti. Einkennileg er sú tilfinning að standa frammi fyrir leirhernum og skoða nákvæmlega hvernig stytturnar voru gerðar. Maður skynjar hnoðnaglana í brynjunum, naglræturnar o.s.frv. Allt þetta og meira til, sem er luti 8. undurs veraldar, var framið 1000 árum fyrir byggð Íslands.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband