Leikur að vatni

Haustið 1999 gerði ég vinkilsþáttinn „Leikur að vatni“, en þar lék ég mér að vatni með ýmsu móti.

Leikurinn hófst í sundlaug Seltjarnarness einn lygnan laugardagsmorgun í október. Við vorum tveir í sturtunni og bað ég félaga minn, hver sem hann var, að veita mér viðtal en hann kvaðst of feiminn til þess. Ég var á leiðinni út og vildi fá hljóðmyndina af gönguferðinni. Því setti ég tækið á hljóðritun. Og viti menn. Maðurinn byrjaði að tala og úr varð þetta ágæta samtal sem hann vissi ekki að hefði verið hljóðritað.

Leikurinn barst svo austur að Geysi, Hringur Árnason, sem þá var 5 ára, sagði mér frá því til hvers hann notaði vatnið, litið var við á kínverska ballettinum Rauðu kvennaherdeildinni, haldið vestur í Skjaldfannardal og lækir látnir dansa saman, hverasvæði í Krísuvík skoðuð og loksins staðnæmst úti við Gróttu. Þar naut ég liðsinnis vinar míns, Magnúsar Bergssonar, hljóðlistarmanns, en hann hljóðritaði öldugjálfrið eina sumarnótt árið 1994. Vek ég sérstaka athygli á þeim hluta þáttarins.

Móðursystir mín, Guðfinna Stefánsdóttir, sagði mér einnig í þættinum hvernig fólk í Vestmannaeyjum hefði margnýtt vatnið á æskuárum sínum. Einnig greindi einn bræðra minna frá víngerð, en málrómi hans var breytt svo að hann yrði ekki lögsóttur. Nú er óhætt að upplýsa að hann heitir Páll Helgason, enda er málið fyrnt.

Heil mikið tilstand var vegna þessa þáttar. Ég hélt að ég gæti rumpað honum af eins og ég var vanur enda kom ég með allt efnið klippt og vandlega undirbúið. En tæknimaður Ríkisútvarpsins, Björn Eysteinsson, var mér ekki sammála og taldi handritið bjóða upp á flest annað en hroðvirkni. Eina ráðið væri að tölvuvinna þáttinn. Endirinn varð um 10 klst. vinna í hljóðveri.

Mælt er með því að fólk hlusti með góðum heyrnartólum. Dans lækjanna skilaði sér ekki nægilega vel í útsendingu útvarpsins, en hann fór þannig fram að ég stóð á mótum tveggja lækja og sneri mér nokkra hringi. Hlusti menn grannt geta þeir heyrt að tvö systkini, börn Lóu á Skjaldfönn, spyrja furðulostinn hvað ég sé eiginlega að gera.

Einn af dagskrárgerðarmönnum BBC, sem hélt námskeið fyrir starfsmenn Ríkisútvarpsins, tók þennan þátt sem dæmi um það sem hægt væri að gera með einu md-tæki og víðómshljóðnema.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband