Uppþvottavélin

Árið 2004 var skipt um eldhúsinnréttingu hjá okkur. Við áttum forláta AEG-uppþvottavél sem var ekki nema 15 ára gömul og hafði einungis bilað einu sinni. Pípulagningarmeistarinn taldi óráð að veðja á hana og fór hún því forgörðum. Í staðinn keyptum við Siemens-vél.

Báðar eru þessar vélar afar hljóðlátar. Á meðan ég var atvinnulaus hlustaði ég stundum eftir hljóðum vélarinnar á meðan hún þvoði og ég lét hugann reika. Tók ég þá eftir því að hljóðin voru margvísleg og ólík eftir því hvað þvegið var. Til dæmis þykir vélinni gaman að þvo stóra potta og önnur ílát sem hljóma vél.

Þriðjudaginn 9. október 2007 fannst mér liggja óvenjuvel á vélinni og var greinilegt að eitthvað skemmtilegt sýslaði hún við. Ég sótti því hljóðrita og hljóðnema og stillti upp framan við hana. Þá heyrðust enn fleiri hljóð en ég hafði áður greint, en hljóðneminn var í u.þ.b. 30 cm hæð frá gólfi.

Vélin er svo taktföst að hæfileikaríkur tónlistarmaður getur auðveldlega notað undirleik hennar sem viðbót eða undirstöðu í eitthvert ofurskemmtilegt lag eða tónverk. Skyldi ég geta sótt um styrk frá siemens til að semja næsta Evróvisjónlag? Hver veit nema það ryki upp í fyrsta sæti og Íslendingar fengju efnahagsaðstoð frá Þjóðverjum til að halda keppnina.

Fái einhver annar þessa hugmynd eftir lestur þessa pistils og verði fyrri til en ég óska ég honum góðs gengis.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af einum og fjórtán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband